Útskrift 12.maí
Fimmtudaginn 12.maí fór fram útskrift frá Fisktækniskóla Íslands. Alls luku 34 nemendur prófi á vorönn af þremur brautum. Þrír luku prófi af almennri Fisktæknibraut. Einn lauk námi af Veiðifæratæknibraut, átta luku framhaldsnámi í Fiskeldistækni og átta luku einnig framhaldnámi í Vinnslutækni. Tvær síðastnefndu brautirnar hafa námslok á þriðja hæfniþrepi og eru sérhæfing – að loknu grunnnámi alls 180 námseiningar. Í vélstjórn luku 14 manns námi (750Kw).
Þetta var í fyrsta skiptið sem Klemenz Sæmundsson sá um að ávarpa nemendur sem skólameistari og kom fram að útskriftin væri sú tuttugasta og fyrsta í röðinni frá því skólinn fékk formlega viðurkenningu sem framhaldsskóli. Störf í haftengdum greinum krefjast stöðugt meiri gæða og aukinnar fagþekkingar starfsfólks. Það er ávinningur fyrirtækja sem vilja starfa í virku samkeppnisumhverfi að hafa innan sinna raða vel þjálfað starfsfólk með faglega þekkingu. Í dag erum við að útskrifa nemendur úr Fisktækni (grunnnám), Fiskeldistækni, Mareltækni og Veiðifæratækni. Fisktækninám er góður grunnur fyrir framtíðina í sjávarútvegi og eldi og er mjög góður grunnur fyrir áframhaldandi nám í Fisktækniskóla Íslands. Nám í fiskeldistækni hentar fólki sem hefur áhuga á eldi og er þegar starfandi í greininni eða vill undirbúa sig fyrir framtíðastörf við fiskeldi þar sem horft er fram á gríðarlegan vöxt á næstu árum hvort sem er á landi eða í sjókvíaeldi. Nám í Mareltækni hefur undirbúið nemendur vel undir þau flóknu störf sem bíða starfsmanna í nútíma sjávarútvegi. Ekki má heldur gleyma veiðifæratækninni en þörf fyrir Veiðifæratækna hefur aukist mikið síðustu ár ekki hvað síðst vegna tilkomu öflugra fiskeldisfyrirtækja í sjókvíaeldi. Vert er að nefna að Fisktækniskólinn hefur komið að raunfærnimati í haftengdum greinum í samstarfi við fræðslumiðstöðvar um land allt í mörg ár og því munum við halda áfram. Einstaklingar utan skóla eiga þess kost að gangast undir raunfærnimat. Þeir geta nýtt niðurstöður matsins til skipulagningar náms á framhaldsfræðslustigi, til styttingar náms á framhaldsskólastigi eða til staðfestingar á hæfni sinni á vinnumarkaði. Mikilvægt er að halda þeim bolta á lofti og vera dugleg að koma þeim upplýsingum áleiðis. Vegna þess að þetta er auðveldasta leiðin fyrir starfsmenn sjávarútvegsfyrirtækja að koma sér á stað í námi ef hjartað liggur í þá átt.
Alls stunduðu um 130 nemendur nám í skólanum á vorönn og kennt var á 5 staðfestum námsbrautum á Íslensku, Ensku og Pólsku.
Mikil aðsókn var í nám á vorönn í Gæðastjórn og Fiskeldistækni sem eru vinsælustu brautirnar hjá okkur og má vænta stórrar útskriftar á haustönn af þessum brautum. Aðsókn í þessar greinar endurspegla það sem er að gerast í þjóðfélaginu. Margir halda að gæðastjórnun sé eingöngu fyrir stór fyrirtæki og sé alltof umfangsmikil til að henta litlum fyrirtækjum. Staðreyndin er hins vegar sú að það er ekki réttlætanlegt að lítil fyrirtæki séu verr rekin en þau stóru og umfang gæðastjórnunar ætti alltaf að vera í beinu hlutfalli við stærð og rekstrarumfang fyrirtækisins. Gæðastjórnun er ekki heldur bundin við ákveðna tegund rekstrar og á við hvort heldur er um að ræða framleiðslu og/eða þjónustu. Það eru spennandi tímar fram undan í fiskeldinu á Íslandi þar sem landeldi er að ryðja sér til rúms á sama tíma og sjókvíaeldi stækkar. Þróun í íslensku fiskeldi hefur verið mikil á síðastliðnum áratug og má segja að algjör umskipti hafi átt sér stað. Fiskeldi í sjó hefur farið frá því að vera atvinnugrein, sem nánast var búið að afskrifa sem raunhæfan valkost við íslenskar aðstæður, yfir í að vera sú grein sem margir horfa til sem helsta vaxtartækifæris í matvælaútflutningi til næstu áratuga.
Að lokinni athöfn þakkaði skólameistari stjórn og starfsfólki skólans fyrir samstarfið á haustönn og sleit skóla.