Stór útskrift á Bíldudal

Það var hátíðleg stund á Bíldudal þann 5.5.2022 þegar Fisktækniskólinn útskrifaði 16 nemendur. Af þessum glæsilega hópi voru sjö nemendur sem útskrifuðust af fisktæknibraut og níu nemendur útskrifuðust úr fiskeldistækni. Flestir nemendurnir komu frá Arnarlaxi og Artic Fish. Fisktækninámið er tveggja ára grunnnám, 120 einingar á framhaldsskólastigi. Fiskeldistæknin er framhaldsskólabraut á þriðja þrepi, 60 einingar, þ.e. 30 verklegar og 30 bóklegar. Þetta er í annað sinn sem skólinn útskrifar nemendur frá Bíldudal í samstarfi við Arnarlax og Artic Fish.

Á undanförnum árum hefur Fisktækniskólinn átt í mjög góðu samstarfi við Arnarlax. Skólinn – ásamt Arnarlaxi – er samstarfsaðili í Evrópuverkefninu Bridges, sem snýr að því að samræma nám í fiskeldi á framhaldsskólastigi á milli Íslands, Noregs, Svíþjóðar og Finnlands. Skólinn vinnur einnig með Arnarlaxi að þróun rafræns kennsluefnis t.d. vegna nýliðafræðslu og endurmenntunar.

Framtíðin liggur í tækninámi:

Störf í haftengdum greinum krefjast stöðugt meiri gæða og aukinnar fagþekkingar starfsfólks. Það er ávinningur fyrirtækja sem vilja starfa í virku samkeppnisumhverfi að hafa innan sinna raða vel þjálfað starfsfólk með faglega þekkingu.

Nám í fiskeldistækni hentar fólki sem þegar er starfandi í greininni, sem sérhæfing í framhaldi af Fisktækninámi, en einnig fólki sem vill undirbúa sig fyrir framtíðastörf við fiskeldi þar sem horft er fram á gríðarlegan vöxt á næstu árum hvort sem er á landi eða í sjókvíaeldi.
Einstaklingar utan skóla eiga þess kost að gangast undir raunfærnimat. Þeir geta nýtt niðurstöður matsins til skipulagningar náms á framhaldsfræðslustigi, til styttingar náms á framhaldsskólastigi eða til staðfestingar á hæfni sinni á vinnumarkaði. Fisktækniskólinn hefur komið að raunfærnimati í haftengdum greinum í samstarfi við fræðslumiðstöðvar um land allt.

 

Previous
Previous

Framtíðin liggur í tækninámi - Fjölmennasta útskrift Fisktækniskóla Íslands frá upphafi!

Next
Next

Fisktækniskólinn útskrifar Marel vinnslutækna