Fisktækniskólinn og Brim undirrita samstarfsyfirlýsingu
Fisktækniskólinn og Brim undirrituðu á Sjávarútvegsráðstefnunni samstarfsyfirlýsingu um eflingu menntunar á sviði sjávarútvegs.
Markmiðið með yfirlýsingunni er tvíþætt; þ.e. það snýr annars vegar að mannauði Brims, símenntun, hæfni og starfsþróun, -og hins vegar að því að stuðla að aukinni nýliðun í starfsgreinum sem lúta að haftengdri starfsemi.
Til að vinna að þessu verkefni verður skipuð samstarfsnefnd skipuð tveimur fulltrúum frá Fisktækniskóla Íslands og eins fulltrúa frá Brimi auk viðeigandi fagaðila frá fyrirtækinu (framleiðslustjórar, gæðastjórar, verkstjórar, útgerðarstjórar, skipstjórnarmenn o.fl.) sem munu hafa aðkomu að verkefninu eftir þörfum. Hlutverk samstarfsnefndarinnar er að marka stefnu, skilgreina verkefni og hafa umsjón með samstarfi aðilanna.
Brim hefur gegnum tíðina verið í miklu samstarfi við Fisktækniskólann í tengslum við símenntun starfsfólks og undirritun þessi kemur til með að treysta það góða samstarf enn frekar.