Styrktarhlaup eða ganga á fjallið Þorbjörn

Athugið að hlaupinu hefur verið frestað um viku vegna veðurs og verður haldið 9. september.

Skólameistari Fisktækniskólans á hlaupum

Laugardaginn 9. september (Ljósanótt) verður hlaup til styrktar Blóð og krabbameinsdeild Landsspítalans. Klemenz Sæmundsson ætlar að hlaupa 20 ferðir á fjallið Þorbjörn við Grindavík, samtals 60 km. Allir eru velkomnir að hlaupa með, alla eða bara hluta leiðarinnar.

Styrktargangan/hlaupið

Klemenz byrjar sitt hlaup kl. 07:00 um morguninn. Skráning er á staðnum og er nóg bara að mæta þegar hentar og velja sér vegalengd. Þetta er ekki keppni og engin tímataka verður.

Ekkert þátttökugjald er, en þeir sem vilja styrkja gott málefni mega leggja inn á reikning nr. 0123-15-123439, kt. 040963-2359 í Landsbankanum. Einnig verður baukur á staðnum sem hægt er að leggja pening í.

  • Frítt er í sundlaug Grindavíkur fyrir þá sem taka þátt

  • Veitingar í boði Samkaupa (Nettó) verða á staðnum á meðan á hlaupi stendur

  • Salerni verða á staðnum

  • Lifandi tónlist verður á staðnum

Vegalengdir

Hver og einn má fara eins margar eða fáar ferðir og þeir vilja, en ferð upp á topp og til baka er 3 km. Skemmtiganga með góðu útsýni og leiðsögn verður kl. 11:00

Dæmi um vegalengdir sem hægt er að fara er í listanum hér fyrir neðan, en að sjálfsögðu má fara hvaða vegalengd sem er.

  • 3 km (ein ferð upp og niður)

  • 9 km (þrjár ferðir upp og niður)

  • 15 km (fimm ferðir upp og niður)

  • 30 km (tíu ferðir upp og niður)

  • 60 km (tuttugu ferðir upp og niður)

Markmið hlaupsins/göngunnar

Markmiðið með hlaupinu/göngunni fyrir utan að safna fyrir góðu málefni, er að vekja athygli á þeirri útivistarparadís sem Þorbjörn er og nærumhverfi fjallsins. Hugmyndin er að byrja smátt en byggja hugsanlega á reynslunni og skipuleggja árlegt hlaup/göngu tengt Þorbirni jafnvel með keppni í huga.

Um Klemenz Sæmundsson

Fyrir 10 árum síðan þegar Klemenz Sæmundsson var að detta í fimmtugt þá hjólaði hann hringinn í kringum landið á átta dögum, tæplega 1400 km og hljóp Klemmann (Reykjanesbær-Sandgerði-Garður-Reykjanesbær). Klemenz hefur síðan hlaupið þessa leið á Gamlársdagsmorgni síðustu 27 ár, en leiðin er tæpir 24 km.

Með hjólatúrnum var ákveðið að safna fyrir Blóðlækningadeild Landspítalans sem heitir nú Blóð- og krabbameinslækningadeild 11EG. Það söfnuðust 965 þúsund kr. sem deildin notaði til að endurnýja hjá sér setustofuna.

Um Þorbjörn

Þorbjörn er bæjarfjall Grindavíkur og mjög áberandi frá Reykjanesbrautinni þar sem hann rís yfir gufustróka Svartsengis, sem fleiri þekkja sem svæði Bláa lónsins. Fellið myndaðist í tveimur goshrinum á aðskildum ísaldartímabilum og merki þess eru augljós í sigdæld sem gengur í gegnum fellið. Þorbjörn er í um 50 km fjarlægð frá Reykjavík sem er innan við klukkustundar akstur frá borginni

Þægileg gönguleið-Frábært útsýni
Ferðin á Þorbjörn er 30-60 mínútna gönguleið eða um 3 km upp og niður.  Gengið er af veginum við Þorbjörn sem er lágreist fjall og um 240m á hæð. Uppi má virða fyrir sér útsýnið og fara ofan í hina djúpu Þjófagjá. Frá fjallinu er stórgæsilegt útsýni yfir Reykjanes, Reykjavíkursvæðið og alveg á Sæfellsnes þar sem jökullinn sést í öllu sínu veldi. Eins sést til gosstöðva við Litla Hrút og Merardali. Uppi á fjallinu sjást ummerki braggabyggðar frá því á stríðsárunum. Hægt að ganga niður fjallið sunnan- og norðan- megin og meðfram því til baka á upphafsstað.

 

https://l.facebook.com/l.php?u=https%3A%2F%2Fwww.vf.is%2Ffrettir%2Fklemenz-frestar-afmaelishlaupi-sinu-a-thorbjorn%3Ffbclid%3DIwAR27wSk_qh-3v5B4fgxgYkGp-cShIKpJeYbA4wFtH6FOCY3QPTwb1KYLxl8&h=AT0CAmAcIL_DxpEaem9L9JaHybD82G2CIFduhdOUTeMaoXik83VhysK-aKoJS2LkLYVOsPxJg-QAto0WEwF8Rl6nWBZsibbhuRgd6LSxtqJZMXjL5_ypERwwr_ccsN5skQY

Previous
Previous

Sjáið viðtal og myndband úr ævintýralegu skólaferðalagi til Danmerkur og Noregs

Next
Next

Veiðarfæratæknir frá Fisktækniskóla Íslands verðlaunaður