Heimsóknnir nemenda í morgun.

Við byrjuðum í fyrirtækinu Íslyft þar sem Pétur Svavarsson tók á móti okkur og leiddi okkur í gegnum fyrirtækið.

Steinbock þjónustan var stofnuð árið 1972 af fámennum hópi þar sem Guðlaugur Gíslason var stærsti hluthafi og hefur verið í eigu sömu fjölskyldu frá upphafi. Félagið er því elsta lyftaraþjónustufyrirtæki landsins og hefur alla tíð kappkostað við að veita framúrskarandi þjónustu við viðskiptavini. 

 

Íslyft hf var stofnað síðar utan um innflutning á nýjum lyfturum og öðrum tækjum. Félagið þjónar fjölbreyttum hópi viðskiptavina m.a. í fiskvinnslu, landbúnaði, verktökum, vöruhúsum, heildsölum, álverum og fleiri atvinnugreinum. Í dag eru Íslyft og Steinbock Þjónustan talin með traustari fyrirtækjum landsins með áratuga reynslu á sínu sviði. Viðurkenningar Creditinfo sem framúrskarandi fyrirtæki um áraraðir ber vott um þann árangur og orðspor sem fyrirtækin hafa skapað sér.





Næst lá leið okkar í Klaka þar sem Grindavíkingurinn Óskar Pétursson ræður ríkjum og sagði hann okkur frá starfseminni. 

Klaki hefur í yfir 50 ár sérhæft sig í framleiðslu á sjálfvirkum búnaði fyrir matvæla- og framleiðsluiðnað, til sjós og lands.

Öruggar og áreiðanlegar lausnir, gott þjónustuaðgengi og þrifavænleg hönnun eru aðalsmerki framleiðslunnar.

Auk tækjaframleiðslu annast Klaki alverktöku á sjálfvirkum vinnslulínum og framleiðslukerfum, og getur boðið hátæknilausnir með iðnaðar- og samvinnuþjörkum, og gervigreindarvæddri tölvusjón.

Að síðustu sóttum við svo heim fyrirtækið Kælingu þar sem Gissur Þórhallsson leiddi okkur í allan sannleikann um starfsemi fyrirtækisins. 

Kæling ehf. er meðal leiðandi fyrirtækja á sviði kæli-, frysti- og ískrapakerfa, einkum fyrir sjávarútveg og matvælaiðnað. Fyrirtækið framleiðir meðal annars krapavélar, sjókæla og kælikerfi fyrir fiskiskip. Kerfin hafa náð fótfestu bæði hér á landi og erlendis enda varðveita þau gæði og ferskleika hráefnisins við vinnslu þess og geymslu í skipunum.

Með því að kæla sjó og dæla í þar til gerð kör á dekki fiskiskipa og færa fiskinn sem fyrst þangað við veiðar hefst varðveisluferli aflans um leið og fiskurinn kemur um borð. Þar koma sjókælar Kælingar ehf. til sögunnar. Kæling framleiðir síðan búnað til ís- eða krapaframleiðslu í skipunum og kælikerfi sem heldur kjörhitastigi á farminum þar til komið er í land. Þannig má hámarka gæði hráefnisins frá veiðum til vinnslu.

Fyrirtækið var stofnað þann 1. september árið 2005 af þeim Atla Steini Jónssyni og Erlendi Stefáni Kristjánssyni. 





Next
Next

Þökkum frábærar viðtökur á opnu húsi Fisktækniskólans